Nathaniel Hawthorne
Nathaniel Hawthorne fæddist árið 1804 í Salem í Massachusetts. Hann gekk í Bowdoin College og brautskráðist þaðan árið 1825. Hann gaf út sitt fyrsta verk, skáldsöguna Fanshawe, árið 1828, en reyndi síðar að leyna því þar sem hann taldi þá sögu síðri að gæðum en önnur verk sín. Hann fékk margar smásögur birtar í tímaritum og safnaði þeim svo saman til útgáfu árið 1837 undir titlinum Twice-Told Tales. Árið eftir trúlofaðist hann Sophiu Peabody. Hann fékk vinnu við tollhúsið í Boston og gekk í Brook Farm, félag transcendalista, áður en hann giftist unnustu sinni árið 1842. Hjónakornin fluttu búferlum nokkrum sinnum og enduðu loks í Concord í Massachusetts. Þau eignuðust þrjú börn saman. Skáldsagan The Scarlet Letter kom út árið 1850 og fleiri skáldsögur fylgdu í kjölfarið. Hawthorne lést árið 1864.
Margar af sögum Hawthornes gerast í Nýja-Englandi á nýlendutímanum. Skáldverk hans teljast tilheyra rómantísku stefnunni. Illska og syndir mannanna eru algengt þema í verkum hans og mörg þeirra fela í sér siðferðisboðskap, ásamt sálfræðilegri dýpt.